"

Akranes

Tjaldsvæðið á Akranesi er staðsett í Kalmansvík í útjaðri bæjarins, við aðra innkeyrsluna á Akranes.


Þjónusta í boði

  • Leikvöllur
  • Sundlaug
  • Gönguleiðir
  • Þvottavél
  • Golfvöllur
  • Rafmagn

Lýsing á aðstöðu

Tjaldsvæðið á Akranesi er staðsett í Kalmansvík sem er falleg vík í útjaðri bæjarins. Það er mjög falleg fjallasýn til norðurs þar sem Snæfellsjökull ber af.

Akranes er tilvalinn áfangastaður ferðamanna enda gefast fólki fjölmörg tilefni til að heimsækja bæinn – allan ársins hring. Á Akranesi er margt skemmtilegt hægt að bralla og óvíða í bæjarfélögum má finna eins margar útivistarperlur og á Akranesi – ýmist innan eða við bæjarmörk. Nægir þar að nefna Akrafjallið sem dæmi en það fallega fjall laðar að sér fjölda fólks á hverjum degi. Gönguferð út með sjó inn að Elínarsæti á sólbjörtu sumarkvöldi er einnig ógleymanleg, ekki síst vegna hins fjölskrúðuga fuglalífs sem þar er og þá er útsýnið á þessum slóðum afar fallegt.

Vitarnir á Breið njóta gríðarlegra vinsælda en þar er hægt að njóta listviðburða, útsýnis og norðurljósadýrðar þegar veðurfarið býður upp á það á vetrartíma.

Þá er vinsælt að leika sér á Langasandi sem er Bláfánavottuð baðströnd með skeljasandsfjöru. Þaðan er stundað sjósund og á sólardögum er ströndin oft þéttsetin fólki. Fleiri afþreyingarsvæði eru á Akranesi, t.d. er hægt að skella sér í sund en í laugum okkar er vatn úr Deildatunguhver. Auðvelt er að gera sér glaðan dag í Garðalundi þar sem m.a. er hægt að grilla, fara í strandblak, frisbígolf, fótbolta og ýmislegt fleira. Við hliðina á Garðalundi er Garðavöllur sem er glæsilegur 18 holu golfvöllur með æðislegu æfingasvæði.

Á Akranesi er í boði fjölbreytt þjónusta fyrir ferðamenn,verslanir og veitingahús og tíðar og reglulegar ferðir Strætó bs. á milli Akraness og Reykjavíkur gefa möguleika á fjölbreyttum dagsferðum ferðamanna þarna á milli.

Nánari upplýsingar: www.visitakranes.is www.facebook.com/Visitakranes


Verð

Verð 2023

Verð fyrir fullorðna: 1.800 kr. (3000kr yfir Írska Daga 29.06.-02.07.)
Frítt fyrir 15 ára og yngri
Ellilífeyrisþegar og öryrkjar: 1.200 kr.
Rafmagn á sólarhring: 1.300 kr.
Þvottavél: 800 kr.
Þurrkari: 800 kr.